Kvennakór Suðurnesja

Afmælisdagur:

22. febrúar 1968

Um:

Æfingar mánudaga (raddæfingar) í Tónlistarskólanum í Garði og miðvikudaga í KK-salnum, Vesturbraut 17-19, Reykjanesbæ kl. 19:30

Kennitala:

591071-0259

08.02.2009 22:01

Frí mánudaginn 9. febrúar

Það verður engin æfing mánudaginn 9. febrúar.  Næsta æfing á miðvikudaginn 11. febrúar.

04.02.2009 15:09

Skálholtsferð

Það styttist í árlega Skálholtsferð Kvennakórs Suðurnesja en hún verður farin um næstu helgi, 7.- 8. febrúarMæting er á laugardag kl. 9.45 við SBK í Grófinni og lagt verður af stað kl. 10 stundvíslega.  Kostnaður er kr. 10.000 sem greiðist í rútunni á leiðinni austur, þannig að það er betra að muna eftir að fara í hraðbankann fyrir helgina.  Innifalið í gjaldinu er gisting í Skálholti, hádegisverður, miðdegiskaffi og kvöldverður á laugardegi og morgunverður, hádegismatur og miðdegiskaffi á sunnudegi auk æfingaaðstöðu.  Kórinn greiðir rútukostnað.  Konur þurfa að taka með sér rúmföt (sængurver, koddaver og lak), nótur, hlý föt og góða skó ef þið viljið fara í göngutúra, betri föt, drykki og snarl fyrir kvöldvöku (athugið að vín með kvöldverði er selt á staðnum) og að sjálfsögðu góða skapið eins og alltaf.  Dagskráin verður með hefðbundnu sniði, við mætum í Skálholt um hádegisbil og fáum léttan hádegisverð þegar við höfum komið okkur fyrir í herbergjunum.  Síðan hefjast æfingar og verður sungið fram undir kvöldmat með salernis- og kaffihléum.  Þá fá konur smástund til að snurfusa sig og skipta um föt fyrir kvöldverðinn.  Að honum loknum hefst síðan kvöldvakan.  Á kvöldvökunni eru heimatilbúin skemmtiatriði og er hér með auglýst eftir einhverjum slíkum.  Þannig að nú er um að gera að leggja höfuðið í bleyti og finna upp á einhverju skemmtilegu.  Skynsamlegt er að halda veigunum í hófi og  fara ekki mjög seint í háttinn á laugardagskvöldinu þótt fjörið sé mikið, því það er byrjað að syngja aftur af krafti eftir morgunmat á sunnudagsmorgni og sungið, með matar-, kaffi- og salernishléum, þar til lagt er af stað heim, væntanlega um sexleytið.  Þetta hafa alltaf verið frábærar ferðir, bæði skemmtilegar og gagnlegar, því það er farið yfir mikið efni á æfingunum og því ekki gott að missa af þessu.  Svo hefur maturinn alltaf verið mjög góður (vonandi er Bjarni kokkur ennþá á svæðinu) og félagsskapurinn er náttúrulega ekki af verri endanum eins og við vitum allar.  Það er nú gott að komast aðeins burt frá amstri dagsins og fá smá hvíld frá matarstússi og öllu hinu.  Þátttakan virðist ætla að vera góð núna og eru flestar kórkonur sem eru starfandi núna búnar að skrá sig. 

29.01.2009 17:46

Raddæfing hjá alt

Mánudaginn 2. febrúar verður raddæfing hjá alt en frí hjá sópran og messó.

26.01.2009 12:36

Raddæfing hjá sópran í kvöld

Í kvöld er raddæfing hjá sópranemoticon , frí hjá messó og altemoticon .

22.01.2009 11:30

Lagalisti vor 2009

Hér er lagalisti Kvennakórs Suðurnesja fyrir vortónleika 2009.  Það er alþjóðlegt yfirbragð á lagavalinu að þessu sinni, auk nokkurra íslenskra laga eru á listanum lög frá Filippseyjum, Rússlandi, Serbíu, Japan, Kenýa, Suður-Ameríku, Jamaíka og Svíþjóð.  Þær sem eiga nótur að þeim lögum sem við höfum sungið áður (Jónasarlögin, Ahay Tuburan og Niska Banja), endilega reynið að finna þær hjá ykkur og koma með á næstu æfingu.

Lagalisti vorönn 2009

Jónasarlög:
    Heylóarvísa
    Úr Hulduljóðum
    Vorvísa (Tinda fjalla)

Ahay Tuburan
Kalinka
Niska Banja
Hotaru Koi
Kenya Melodies
Sway
El ritmo de la noche
People get ready
Mamma mia syrpa
Hvítir mávar


Það verður gaman að takast á við þetta, og munið bara að byrja strax að læra textana, það er ekki hægt að læra þetta allt á síðustu stundu.

21.01.2009 22:16

Raddæfing hjá sópran mánudaginn 26. janúar

Næsta mánudag, 26. janúar verður raddæfing hjá sópran og því frí hjá messó og alt.

14.01.2009 23:34

Kvennakórinn fluttur

Kvennakórinn hefur flutt starfsemi sína í Listasmiðjuna á Vallarheiði og var fyrsta æfingin þar á mánudaginn.  Kórkonur byrjuðu á því að þrífa aðstöðuna áður en þær hófu upp raust sína.  Eflaust verður farið í einhverjar endurbætur á húsnæðinu með tíð og tíma, en mest um vert er að kórinn er nú kominn með aðstöðu þar sem hægt er að hafa allt á einum stað, en hingað til hafa eigur kórsins eins og nótnasafn og fleira verið geymdar á hinum ýmsu stöðum, oft heima hjá stjórnarkonum en síðast í geymslu sem Byggðasafnið hefur til umráða.  Með húsnæðinu fylgdi píanó sem greinilega hefur verið mikið notað, og þurfti aðeins að "tjasla því saman" eins og sést á meðfylgjandi mynd.  Fleiri myndir í myndaalbúmi.

09.01.2009 15:55

Æfingar hefjast í Listasmiðjunni á Vallarheiði

Þá er þrettándandum lokið og var okkar kona, Birta Rós Arnórsdóttir glæsileg sem álfadrottning eins og von var á.  Tókust hátíðarhöld vel og flugeldasýningin glæsileg að venju.  Þó fannst okkur í álfakórnum að þeir sem að skipulagninunni stóðu hefðu mátt gefa okkur meiri upplýsingar um til hvers væri ætlast af okkur, eins og oft áður þegar breytingar hafa verið gerðar á skipulagi hátíðarhaldanna.

En nú eru æfingar að hefjast að nýju eftir jólafrí og nú á nýjum stað, en við ætlum að flytja okkur í Listasmiðjuna á Vallarheiði þar sem Reykjanesbær hefur útvegað okkur aðstöðu.  Fyrsta æfingin þar verður næstkomandi mánudag, 12. janúar kl. 19.30.  Listasmiðjan er til húsa að Keilisbraut 773 á Vallarheiði.

03.01.2009 16:19

Æfing fyrir þrettándann

Gleðilegt ár!



Þá er komið að fyrsta verkefni nýs árs, hinni árlegu þrettándabrennu og álfasöngnum okkar.  Æfing fyrir þrettándann verður mánudaginn 5. janúar kl. 20:00 í Tónlistarskólanum á Austurgötu.  Hittumst allar hressar eftir jólafrí og muna eftir textunum.

22.12.2008 09:50

Gleðileg jól

Kvennakór Suðurnesja sendir núverandi og fyrrverandi kórfélögum,  velunnurum sínum og Suðurnesjamönnum öllum sínar bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt komandi ár, með kæru þakklæti fyrir gott samstarf og stuðning á liðnum árum. 



Næsta verkefni kórsins verður álfasöngur á þrettándanum, nánar um það síðar.

17.12.2008 22:57

Mæting fimmtudag 18. desember

Mæting í Tónlistarskólanum á Þórustíg kl. 18:00 í upphitun, þurfum svo að vera mættar í Bláa lónið kl. 19:00.  Syngjum tvö af okkar jólalögum og tvö lög með karlakórnum.

17.12.2008 11:40

Styrktartónleikar í Bláa lóninu


Fimmtudaginn 18. desember ætlar einvalalið tónlistarmanna tengdir Suðurnesjum að koma fram á jólatónleikum til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja.  Á tónleikunum munu koma fram Elíza Geirsdóttir Newman, Jóhann Helgason, Karlakór Keflavíkur, Klassart, Kvennakór Suðurnesja, Magnús, Kjartan Már og Finnbogi Kjartanssynir, Védís Hervör og Þóranna Kristín.  Allir aðstandendur og þeir sem fram koma gefa vinnu sína og rennur andvirði aðgöngumiða óskert til Velferðarsjóðs Suðurnesja.


Fráfall Rúnars Júlíussonar hefur haft mikil áhrif á Suðurnesjamenn og hefur jafnframt áhrif á tónleikana, en Rúnni ætlaði að koma fram á tónleikunum ásamt fjölskyldu sinni.  Tónleikarnir verða því haldnir í minningu hans enda hafa flestir ef ekki allir tónlistarmennirnir sem fram koma kynnst Rúnna og margir hverjir unnið með honum í gegnum tíðina.
Viðtökur við hugmyndinni að tónleikunum hafa verið frábærar og allir boðnir og búnir til að leggja sitt af mörkum.  Auk tónlistarmannanna hafa fyrirtæki tekið vel í að styrkja verkefnið með framlögum í ýmsu formi.  Þannig leggur Bláa lónið til salinn, Sparisjóðurinn styrkir verkefnið og sér auk þess um miðasölu á tónleikana, Grágás gefur prentun og keflvískir hönnuðir sjá um auglýsingagerðina auk þess sem Víkurfréttir gefa auglýsingabirtingar.  Allt þetta gerir það mögulegt að láta ágóðann renna óskertan til málefnisins.

Tónleikarnir eru fimmtudaginn 18. desember og hefjast kl. 20:00 í Lava sal Bláa lónsins.  Miðaverð er kr. 2.500,- og forsala aðgöngumiða fer fram í útibúum Sparisjóðsins um öll Suðurnes.

Fjárframlög til Velferðarsjóðs Suðurnesja má leggja inn á reikning 1109-05-1151 kt. 680169-5789.


15.12.2008 12:09

Engar æfingar í þessari viku

Engar æfingar verða í þessari viku, það verður tilkynnt síðar um mætingu á fimmtudaginn.

10.12.2008 23:11

Tónleikar í Keflavíkurkirkju 14. desember 2008

Aðventutónleikar verða haldnir í Keflavíkurkirkju sunnudaginn 14. desember kl. 20.00 til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja. 

Velferðarsjóður hefur það að markmiði að veita stuðning til einstaklinga og fjölskyldna á svæðinu til viðbótar þeim úrræðum sem þegar hafa verið í boði.  Velferðarsjóður á Suðurnesjum er starfræktur í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar.  Sjálfur stuðningurinn fer fram í gegnum þá aðila sem miðla styrkjum til fólks hér á svæðinu.  Ber þar að nefna kirkjurnar og ýmis líknarfélög.  Þau senda erindið áfram til Hjálparstarfsins sem veitir úr sjóðnum.  Allir geta lagt sjóðnum lið, bæði með beinum fjárframlögum og ekki síður ýmsu framtaki og söfnun.

Á tónleikunum koma fram:

Kvennakór Suðurnesja
Karlakór Keflavíkur
Kór Keflavíkurkirkju
Gleði-Gospel
Jóhann Smári Sævarsson bassasöngvari
Sigurður Flosason saxófónleikari


Stjórnendur eru Arnór Vilbergsson, Guðlaugur Viktorsson, Dagný Jónsdóttir og Ester Daníelsdóttir van Gooswillegen.

Arnór Vilbergsson er við píanóið.
Prestur er sr. Skúli S. Ólafsson
Kynnir tónleikanna er Hjálmar Árnason.

Aðgangur er ókeypis, en tekið verður á móti frjálsum framlögum sem renna í Velferðarsjóðinn.

09.12.2008 21:15

Samæfing miðvikudag 10. des. og helgin

Samæfing verður miðvikudag 10. desember í Keflavíkurkirkju kl. 20.00.
Mæting á laugardag í Tónlistarskólanum á Þórustíg kl. 14.15 í búningum og með jólabjöllur.
Mæting á sunnudag í Keflavíkurkirkju kl. 18.00 í búningum og með jólabjöllur.

Flettingar í dag: 4
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 88
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 63736
Samtals gestir: 15515
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 01:03:21
##sidebar_two##

Tenglar