Kvennakór Suðurnesja

Afmælisdagur:

22. febrúar 1968

Um:

Æfingar mánudaga (raddæfingar) í Tónlistarskólanum í Garði og miðvikudaga í KK-salnum, Vesturbraut 17-19, Reykjanesbæ kl. 19:30

Kennitala:

591071-0259

04.02.2009 15:09

Skálholtsferð

Það styttist í árlega Skálholtsferð Kvennakórs Suðurnesja en hún verður farin um næstu helgi, 7.- 8. febrúarMæting er á laugardag kl. 9.45 við SBK í Grófinni og lagt verður af stað kl. 10 stundvíslega.  Kostnaður er kr. 10.000 sem greiðist í rútunni á leiðinni austur, þannig að það er betra að muna eftir að fara í hraðbankann fyrir helgina.  Innifalið í gjaldinu er gisting í Skálholti, hádegisverður, miðdegiskaffi og kvöldverður á laugardegi og morgunverður, hádegismatur og miðdegiskaffi á sunnudegi auk æfingaaðstöðu.  Kórinn greiðir rútukostnað.  Konur þurfa að taka með sér rúmföt (sængurver, koddaver og lak), nótur, hlý föt og góða skó ef þið viljið fara í göngutúra, betri föt, drykki og snarl fyrir kvöldvöku (athugið að vín með kvöldverði er selt á staðnum) og að sjálfsögðu góða skapið eins og alltaf.  Dagskráin verður með hefðbundnu sniði, við mætum í Skálholt um hádegisbil og fáum léttan hádegisverð þegar við höfum komið okkur fyrir í herbergjunum.  Síðan hefjast æfingar og verður sungið fram undir kvöldmat með salernis- og kaffihléum.  Þá fá konur smástund til að snurfusa sig og skipta um föt fyrir kvöldverðinn.  Að honum loknum hefst síðan kvöldvakan.  Á kvöldvökunni eru heimatilbúin skemmtiatriði og er hér með auglýst eftir einhverjum slíkum.  Þannig að nú er um að gera að leggja höfuðið í bleyti og finna upp á einhverju skemmtilegu.  Skynsamlegt er að halda veigunum í hófi og  fara ekki mjög seint í háttinn á laugardagskvöldinu þótt fjörið sé mikið, því það er byrjað að syngja aftur af krafti eftir morgunmat á sunnudagsmorgni og sungið, með matar-, kaffi- og salernishléum, þar til lagt er af stað heim, væntanlega um sexleytið.  Þetta hafa alltaf verið frábærar ferðir, bæði skemmtilegar og gagnlegar, því það er farið yfir mikið efni á æfingunum og því ekki gott að missa af þessu.  Svo hefur maturinn alltaf verið mjög góður (vonandi er Bjarni kokkur ennþá á svæðinu) og félagsskapurinn er náttúrulega ekki af verri endanum eins og við vitum allar.  Það er nú gott að komast aðeins burt frá amstri dagsins og fá smá hvíld frá matarstússi og öllu hinu.  Þátttakan virðist ætla að vera góð núna og eru flestar kórkonur sem eru starfandi núna búnar að skrá sig. 
Flettingar í dag: 36
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 28
Gestir í gær: 9
Samtals flettingar: 63622
Samtals gestir: 15438
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 15:26:28
##sidebar_two##

Tenglar