Kvennakór Suðurnesja

Afmælisdagur:

22. febrúar 1968

Um:

Æfingar mánudaga (raddæfingar) í Tónlistarskólanum í Garði og miðvikudaga í KK-salnum, Vesturbraut 17-19, Reykjanesbæ kl. 19:30

Kennitala:

591071-0259

Færslur: 2009 Febrúar

22.02.2009 23:35

Æfing mánudaginn 23. febrúar

Allar raddir eiga að mæta á æfingu mánudaginn 23. febrúar kl. 19.30.  Sópran og alt verða búnar um kl. 21 en messó verður lengur.

19.02.2009 09:55

Skálholtspistill

Helgina 7.-8. febrúar síðastliðinn fór Kvennakór Suðurnesja í sínar árlegu æfingabúðir í Skálholti.  Lagt var af stað um tíuleytið á laugardagsmorgni í fallegu vetrarveðri, jörð var hvít og himininn heiðskír.  Eftir að hafa stoppað stutt í Hveragerði á leiðinni eins og lög gera ráð fyrir var kórinn mættur um hádegisbil í Skálholt.  Þegar konur höfðu komið sér fyrir í herbergjum og fengið sér ljúffengan hádegisverð hófust æfingar sem stóðu fram undir kvöldmat.  Hluta dagsins voru raddæfingar og notuðu konur þá tímann þegar aðrar raddir æfðu ýmist til að fá sér göngutúr í fallegu umhverfinu eða til að slaka á.  Um kvöldið var síðan snæddur gómsætur kvöldverður en eins og ávallt var maturinn mjög góður og vonum við að Bjarni kokkur verði áfram á staðnum eins og undanfarin ár.  Þema kvöldsins var "hálsfestar og höfuðskraut" og voru margar kvennanna fallega skreyttar.  Að kvöldverði loknum var haldin kvöldvaka í setustofu og var að vonum mikið fjör, eins og ætíð þegar hópur skemmtilegra kvenna kemur saman.  Farið var í leiki og að sjálfsögðu voru nýjar konur vígðar inn í hópinn á hefðbundinn hátt.  Gítarinn var á lofti og mikið sungið, þó konur væru búnar að syngja allan daginn.  Vitandi að æfingar héldu áfram næsta morgun voru flestar konur gengnar til náða um og upp úr miðnætti, en þær allra hressustu héldu þó eitthvað lengur áfram.  Að morgni vöknuðu flestar því nokkuð hressar og kátar í morgunverð.  Áður en söngæfingar hófust var byrjað á léttum leikfimis- og teygjuæfingum svona rétt til að koma líkamsstarfseminni aðeins í gang.  Svo var sungið allan daginn með matar- og kaffihléum þar til rútan mætti til að flytja hópinn aftur heim um hálfsexleytið.  Það var þreyttur en ánægður hópur kvenna sem steig út úr rútunni þegar heim var komið.  Helgin var velheppnuð, vel hafði miðað í söngnum auk skemmtunarinnar.  Það er alveg óhætt að mæla með dvöl í Skálholti, aðstaðan er frábær og maturinn ljúffengur og ekki skemmir verðið fyrir.  Kvennakór Suðurnesja hlakkar til að mæta þangað aftur að ári.

16.02.2009 19:27

Engin æfing í kvöld

Engin æfing í kvöld, mánudag 16. febrúar vegna veikinda.

14.02.2009 13:12

Raddæfing hjá messó

Mánudaginn 16. febrúar verður raddæfing hjá messó, frí hjá sópran og alt.

08.02.2009 22:01

Frí mánudaginn 9. febrúar

Það verður engin æfing mánudaginn 9. febrúar.  Næsta æfing á miðvikudaginn 11. febrúar.

04.02.2009 15:09

Skálholtsferð

Það styttist í árlega Skálholtsferð Kvennakórs Suðurnesja en hún verður farin um næstu helgi, 7.- 8. febrúarMæting er á laugardag kl. 9.45 við SBK í Grófinni og lagt verður af stað kl. 10 stundvíslega.  Kostnaður er kr. 10.000 sem greiðist í rútunni á leiðinni austur, þannig að það er betra að muna eftir að fara í hraðbankann fyrir helgina.  Innifalið í gjaldinu er gisting í Skálholti, hádegisverður, miðdegiskaffi og kvöldverður á laugardegi og morgunverður, hádegismatur og miðdegiskaffi á sunnudegi auk æfingaaðstöðu.  Kórinn greiðir rútukostnað.  Konur þurfa að taka með sér rúmföt (sængurver, koddaver og lak), nótur, hlý föt og góða skó ef þið viljið fara í göngutúra, betri föt, drykki og snarl fyrir kvöldvöku (athugið að vín með kvöldverði er selt á staðnum) og að sjálfsögðu góða skapið eins og alltaf.  Dagskráin verður með hefðbundnu sniði, við mætum í Skálholt um hádegisbil og fáum léttan hádegisverð þegar við höfum komið okkur fyrir í herbergjunum.  Síðan hefjast æfingar og verður sungið fram undir kvöldmat með salernis- og kaffihléum.  Þá fá konur smástund til að snurfusa sig og skipta um föt fyrir kvöldverðinn.  Að honum loknum hefst síðan kvöldvakan.  Á kvöldvökunni eru heimatilbúin skemmtiatriði og er hér með auglýst eftir einhverjum slíkum.  Þannig að nú er um að gera að leggja höfuðið í bleyti og finna upp á einhverju skemmtilegu.  Skynsamlegt er að halda veigunum í hófi og  fara ekki mjög seint í háttinn á laugardagskvöldinu þótt fjörið sé mikið, því það er byrjað að syngja aftur af krafti eftir morgunmat á sunnudagsmorgni og sungið, með matar-, kaffi- og salernishléum, þar til lagt er af stað heim, væntanlega um sexleytið.  Þetta hafa alltaf verið frábærar ferðir, bæði skemmtilegar og gagnlegar, því það er farið yfir mikið efni á æfingunum og því ekki gott að missa af þessu.  Svo hefur maturinn alltaf verið mjög góður (vonandi er Bjarni kokkur ennþá á svæðinu) og félagsskapurinn er náttúrulega ekki af verri endanum eins og við vitum allar.  Það er nú gott að komast aðeins burt frá amstri dagsins og fá smá hvíld frá matarstússi og öllu hinu.  Þátttakan virðist ætla að vera góð núna og eru flestar kórkonur sem eru starfandi núna búnar að skrá sig. 
  • 1
Flettingar í dag: 1
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 49
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 62499
Samtals gestir: 15135
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 00:16:32
##sidebar_two##

Tenglar