Kvennakór Suðurnesja

Afmælisdagur:

22. febrúar 1968

Um:

Æfingar mánudaga (raddæfingar) í Tónlistarskólanum í Garði og miðvikudaga í KK-salnum, Vesturbraut 17-19, Reykjanesbæ kl. 19:30

Kennitala:

591071-0259

13.02.2011 12:54

Raddæfing hjá alt

Raddæfing verður hjá alt á Valentínusardaginn, mánudaginn 14. febrúar.

02.02.2011 22:24

Gátlisti fyrir Skálholt

Það sem þarf að taka með í Skálholt 5. - 6. febrúar 2011:

Rúmföt

Kórmöppu

Inniskó

Álpappírsrúllu

Hatt

Brandara eða skemmtilegan leik

Betri föt fyrir kvöldskemmtun

Góða skapið

Nesti, ef þið viljið ekki kaupa eitthvað í sjoppu á leiðinni. Borðum ekki hádegismat á laugardeginum.

Snakk fyrir kvöldið

Áfenga drykki ef konur vilja hafa með sér.  Hægt er að kaupa rauðvín/hvítvín með matnum og mælum við með því, ekki koma með drykki frá herbergi.

30.01.2011 13:31

Raddæfing hjá sópran

Raddæfing verður hjá sópran mánudaginn 31. janúar.

30.01.2011 13:10

Fréttabréf Kvennakórs Suðurnesja

Kæru kórkonur. Þá er janúar að verða búinn og við byrjaðar á fullu að æfa fyrir vortónleika sem verða í maí. Því miður varð ekkert af þrettándaskemmtun og álfadrottninginn fékk ekki að láta ljós sitt skína, né nýju búningarnir okkar, en Jóhanna fær að syngja næst því hlutverkið bíður eftir henni. En þá að því sem fram undan er.

Skálholt 5 - 6. febrúar: Æfingabúðir eru fastur liður hjá kórnum, í ár hefur gisting og matur hækkað frá fyrra ári og mun kosta 13.000 kr. pr. konu. Innifalið er kaffi og kvöldmatur á laugardegi og morgunmatur, hádegismatur og kaffi á sunnudegi. Konur koma með sitt eigið lín og í ár verður hattaþema til að peppa upp kvöldstemningu. Lagt verður af stað kl. 10.00 á laugardegi frá SBK og komið heim um 20.00 á sunnudegi.

Messa 13. febrúar í Keflavíkurkirkju kl. 11.00. Mæting kl. 10.00.

Í mars ætlum við að hafa fjáröflunarskemmtun eins og Kvennakór Kópavogs var með og bjóða þeim ásamt Söngsveit Suðurnesja og Víkingunum. Verður þetta í Samkomuhúsinu í Sandgerði og hjálpumst við allar að við að gera þetta kvöld eftirminnilegt eins og okkar er von og vísa. En okkur sárvantar konur í skemmtinefnd í þessum kór og vona ég svo innilega að einhverjar bjóði sig fram í þá nefnd nú þegar.

Búið er að borga staðfestingargjald vegna landsmóts á Selfossi sem er 5.000 kr. pr. konu og verður greiðsluseðill sendur fljótlega til innheimtu. Kæru konur, takið fagnandi á móti honum.

Kórferð til Færeyja 2012.

Ferðanefnd hefur ekki hafið störf en hún þarf að vera í startholunum, en stjórnin fékk bréf frá ÍT-ferðum sem sérhæfir sig í kóraferðum ásamt fleiru og tók sérstaklega fram að þeir hefðu séð um kóraferðir til Færeyja, þannig að við sendum ósk um tilboð í slíka ferð og bíðum spenntar eftir tilboði. En eins og við vitum kostar þetta peninga og ef konur hafa áhuga á að afla sér fjár með því að selja hreinlætisvörur þá endilega talið við Heiðu og eins er ekkert vitlaust að byrja hreinlega að leggja fyrir, við getum þá tekið 1% af launum ykkar og lagt inn á reikning sem verður eyrnamerktur Færeyjaferð. Nei, smá grín. En við getum sent ykkur greiðsluseðil t.d. 3.000 kr. og lagt þannig fyrir.

13.01.2011 08:28

Raddæfing hjá alt

Það verður raddæfing hjá alt mánudaginn 17. janúar.

10.01.2011 12:56

Þrettándagleði aflýst - æfing í kvöld

Þrettándagleði í Reykjanesbæ, sem fyrirhuguð var í dag, fellur niður vegna óhagstæðrar veðurspár. Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Suðurnes mun fara fram þegar betur viðrar.
Fyrsta kóræfing ársins verður í kvöld, mánudag 10. janúar kl. 20 í Listasmiðjunni á Ásbrú.

06.01.2011 11:49

Þrettándagleði frestað

Þrettándagleði í Reykjanesbæ hefur verið frestað vegna veðurs  fram á mánudaginn 10. janúar kl. 18:00.
Hátíðarhöld munu fara fram á áður auglýstum stað.

03.01.2011 17:45

Þrettándagleði í Reykjanesbæ

Árleg þrettándagleði í Reykjanesbæ verður haldin fimmtudaginn 6. janúar við Ægisgötu. Dagskrá hefst kl. 18.00 með skrúðgöngu frá Myllubakkaskóla að hátíðarsvæði.

Álfabrenna, tónlist, söngur, álfakóngur og drottning, púkar, Grýla, Leppalúði og jólasveinar. Heitt kakó í boði Reykjanesbæjar. Karlakór Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Leikfélag Keflavíkur, Skátarnir, Björgunarsveitin Suðurnes, Léttsveit og Trommusveit Tónlistarskólans og tröllastelpan Fjóla taka þátt í dagskránni.

Flugeldasýning á vegum Björgunarsveitarinnar Suðurnes.

Bílastæði eru við Ægisgötu og Tjarnargötu 12.


Æfing fyrir þrettándagleðina verður í Tónlistarskólanum við Austurgötu þriðjudaginn 4. janúar kl. 20:30.

Fyrsta kóræfing á nýju ári verður síðan næstkomandi mánudag, 10. janúar kl. 20.

22.12.2010 12:36

Gleðileg jól

Kvennakór Suðurnesja sendir kórfélögum, velunnurum og Suðurnesjamönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð með kæru þakklæti fyrir frábært samstarf og stuðning á árinu sem er að líða.  Megi nýtt ár færa ykkur öllum blessun og frið.

24.11.2010 23:36

Aðventutónleikar Kvennakórs Suðurnesja og Söngsveitarinnar Víkinga

Aðventutónleikar Kvennakórs Suðurnesja og Söngsveitarinnar Víkinga.

Kvennakór Suðurnesja og Söngsveitin Víkingar halda sameiginlega aðventutónleika í Hljómahöllinni í Stapa miðvikudaginn 1. desember kl. 20. Á dagskránni verða jólalög úr ýmsum áttum auk kirkjulegra verka og munu kórarnir syngja í sitthvoru lagi en enda síðan tónleikana með því að syngja nokkur lög saman. Í haust tók hinn kunni söngvari Jóhann Smári Sævarsson við sem stjórnandi Víkinganna en Dagný Þórunn Jónsdóttir sópransöngkona er stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja eins og undanfarin ár. Um hljóðfæraleik sjá Geirþrúður Fanney Bogadóttir á píanó, Birna Rúnarsdóttir á þverflautu og Einar Gunnarsson á harmonikku. Þetta verður söngveisla sem kemur öllum í jólaskap í byrjun aðventu.  Miðasala verður við innganginn og er miðaverð kr. 2000.

Kvennakórskonur hafa verið önnum kafnar undanfarið, en auk þess að æfa stíft fyrir tónleikana skelltu þær sér eina helgi í byrjun nóvember á Sólheima í Grímsnesi þar sem þær saumuðu álfabúninga sem notaðir verða á þrettándagleði Reykjanesbæjar, en kórinn tekur þátt í þeirri hátíð á hverju ári.  Um síðustu helgi hittust kórkonur síðan ásamt fjölskyldum síðan og skáru út og steiktu 1500 laufabrauð, en laufabrauðssalan er orðinn fastur liður í fjáröflun kórsins og er laufabrauðið frá kvennakórnum mjög vinsælt.  Þeir sem hafa áhuga á að kaupa laufabrauð geta sent pöntun á netfangið hringlist@hotmail.com eða haft samband við kórkonur.

Eftir áramót fer kórinn síðan að undirbúa sig fyrir landsmót kvennakóra sem haldið verður á Selfossi 29. apríl - 1. maí 2011 auk þess sem kórinn mun að venju halda vortónleika næsta vor.  Liður í þeim undirbúningi eru æfingabúðir í Skálholti en þangað fer kórinn í byrjun febrúar.

19.11.2010 08:37

Laufabrauð

Laugardaginn 20. nóvember ætla kórkonur í Kvennakór Suðurnesja að koma saman ásamt fjölskyldum til að steikja laufabrauð. Dagurinn hefst kl. 9 og er ætlunin að steikja 1500 kökur þannig að það verður haldið áfram þar til allt er búið. Konur eru hvattar til að taka fjölskylduna með og taka forskot á jólastemninguna, það er um að gera að hafa sem flestar hendur í útskurðinum, því fyrr verður þetta búið. Þetta er fyrir löngu orðinn fastur liður í fjáröflun kórsins og hefur laufabrauðið frá kórnum verið mjög vinsælt. Þeir sem hafa áhuga á að ná sér í laufabrauð frá kvennakórnum geta haft samband við kórkonur. Símanúmer og netföng hjá stjórnarkonum er að finna hér á síðunni undir liðnum "Um kórinn". Framundan hjá kórnum eru aðventutónleikar sem verða haldnir í Stapa miðvikudaginn 1. desember ásamt söngsveitinni Víkingum, auk þess sem kórinn ætlar að kíkja í heimsókn á Garðvang og Hlévang og syngja fyrir eldri borgara þar.

28.10.2010 11:07

Sólheimaferð

Helgina 6. - 7. nóvember munu kórkonur fara að Sólheimum í Grímsnesi og eiga góða stund saman.  Þetta verður eins konar "saumaklúbbur" þar sem ætlunin er að sauma álfabúninga en eins og flestum ætti að vera kunnugt tekur kórinn þátt í Þrettándagleði í Reykjanesbæ á hverju ári.  Þær sem tök hafa á eru því beðnar að taka með sér saumavélar.
Lagt verður af stað kl. 10.30 á laugardagsmorgni og verður sameinast í bíla.  Dagurinn fer svo væntanlega að mestu í saumaskap en um kvöldið eldum við mat og skemmtum okkur saman.  Konur þurfa að taka með sér mat fyrir helgina, þ.e. eitthvað snarl yfir daginn og kvöldmat á laugardeginum og morgunmat á sunnudegi.  Verð fyrir gistingu er um kr. 4000 á konu.

Laugardaginn 20. nóvember verður hin árlega laufabrauðsgerð.  Þá mæta allar sem vettlingi geta valdið og taka fjölskyldurnar með til að skera út og steikja laufabrauð.  Því fleiri sem mæta því fyrr verðum við búnar.  Laufabrauðið hefur verið mjög vinsælt og best er ef konur eru búnar að taka niður pantanir fyrirfram.  Við þurfum að vera duglegar í fjáröfluninni til að greiða niður kostnað við landsmótið í vor og svo Færeyjaferðina sem er fyrirhuguð vorið 2012.  
Kórinn er einnig með falleg tækifæriskort og afmælisdagatöl með myndum eftir Hildi Harðar til sölu og má sjá eina af myndunum hér til hliðar.

Kvennakór Suðurnesja heldur jólatónleika ásamt Söngsveitinni Víkingum í Stapa miðvikudaginn 1. desember kl. 20.  Lagalisti er undir liðnum "Á döfinni".  Sunnudaginn 5. desember syngur kórinn fyrir eldri borgara á Hlévangi og Garðvangi.  Nánar um það síðar.

13.09.2010 11:27

Opin æfing á miðvikudag

Kvennakór Suðurnesja heldur opna æfingu í Listasmiðjunni á Ásbrú miðvikudaginn 15. september kl. 20.  Allar konur sem hafa áhuga á söng eru boðnar velkomnar, annað hvort til að taka þátt í æfingunni eða sitja og hlusta.  Það verður kaffi á könnunni og súkkulaði með.  Flestar kórkonur eru úr Reykjanesbæ, en kórinn er opinn konum af öllum Suðurnesjum og eru konur úr Grindavík, Vogum, Garði og Sandgerði hvattar til að mæta líka. 

Æfingar verða í Listasmiðjunni á mánudögum og miðvikudögum kl. 20-22 í vetur.  Á mánudögum eru yfirleitt raddæfingar þannig að hver rödd mætir þriðja hvern mánudag.  Þegar nær dregur tónleikum eða öðrum viðburðum mæta þó yfirleitt allar raddir á báðar æfingar.

Það er ýmislegt á döfinni hjá kórnum.  Fyrir jólin er ætlunin að halda aðventutónleika með söngsveitinni Víkingum og verður byrjað að æfa jólalögin fljótlega.  Eftir áramót fer kórinn svo í árlegar æfingabúðir í Skálholti.  Næsta vor verður haldið landsmót kvennakóra á Selfossi og mun Kvennakór Suðurnesja taka þátt í því auk þess að halda vortónleika hér heima.  Vorið 2012 er svo stefnan sett á söngferðalag til Færeyja.  Það er því margt skemmtilegt og spennandi framundan.  Það má líka benda á að það er læknisfræðilega sannað að við söng framleiðir heilinn endorfin, gleðigjafann sem er besta ráðið við þunglyndi, þannig að það er þjóðhagslega hagkvæmt að sem flestir syngi í kórum, enda er þetta líka frábær félagsskapur.

07.09.2010 18:21

Vetrarstarfið að hefjast

Þá er Ljósanótt lokið og er óhætt að segja að vel hafi tekist til með þátttöku Kvennakórs Suðurnesja í hátíðinni.  Á laugardeginum söng kórinn fyrir troðfullum Bíósal í Duushúsum við frábærar undirtektir og á sunnudeginum tók kórinn síðan þátt í stórglæsilegum hátíðartónleikum í Stapa.  Voru tónleikagestir í skýjunum að þeim loknum og hafa flytjendur og skipuleggjendur tónleikanna hlotið mikið lof fyrir. Það er nokkuð ljóst að tónleikar sem þessir verða fastur liður á Ljósanæturhátíðum komandi ára.

Vetrarstarf kórsins hefst með æfingu í Listasmiðjunni á Ásbrú miðvikudaginn 8. september kl. 19.30, en æfingar verða síðan á mánudögum og miðvikudögum kl. 20 í vetur.  

01.09.2010 14:29

Kvennakór Suðurnesja tekur þátt í Ljósanótt í Reykjanesbæ 2010

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar verður haldin í  11. sinn dagana 2. - 5. september.


Dagskráin þessa hátíðardaga er fjölbreytt og sniðin að þörfum allrar fjölskyldunnar. Bæjarbúar taka virkan þátt í hátíðinni og framboð menningarviðburða hefur aukist ár frá ári jafnt og gestafjöldi. Áhersla er lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags en hápunktur hátíðarinnar er á laugardeginum.

Tónlistin leikur stórt hlutverk á Ljósanótt, má þar nefna rokktónleika í Rokkheimum Rúnars Júlíussonar, bílskúrstónleika eldri kappa, tónleikasyrpu í Duushúsum þar sem Kvennakór Suðurnesja mun koma fram í Bíósalnum kl. 16.30 og hátíðartónleika í Stapa. Tónleikar unga fólksins verða í Frumleikhúsinu á fimmtudagskvöldið og á útisviðinu á föstudeginum koma fram ýmsir tónlistarmenn. Hátíðarhöldin ná hámarki á laugardagskvöldið en þá leika Hjaltalín og Páll Óskar, Hjálmar, Mannakorn og Ellen Kristjánsdóttir.  Gert verður hlé á dagskránni á meðan á flugeldasýningu stendur upp úr tíu en Hjálmar munu leika áfram í nokkra stund að henni lokinni.


Boðið verður upp á kjötsúpu fyrir gesti og gangandi á föstudeginum og árgangagangan á laugardeginum er viðburður sem enginn vill missa af. Skemmtileg barnadagskrá verður á stóra sviðinu á laugardeginum auk þess sem boðið verður upp á ratleik í Duushúsum og Tilraunalandið ásamt hoppuköstulum og kassaklifri verður í skrúðgarðinum. Skessan í hellinum er í hátíðarskapi og mun hún bjóða gestum hátíðarinnar upp á heitar lummur við smábátahöfnina í Gróf.


Fjöldi myndlistarmanna sýnir verk sín víðs vegar um bæinn auk þess sem gallerý og vinnustofur listamanna verða opnar. Þess má geta að á þriðja hundrað einstaklinga eru að sýna verk sín á einn eða annan hátt.

 

Hátíðartónleikar á vegum Tónlistarfélags Reykjanesbæjar verða haldnir í Stapa á Ljósanótt með aðkomu helstu kóra og einsöngvara í Reykjanesbæ.
Meðal þátttakenda eru: Kvennakór Suðurnesja, Kór Keflavíkurkirkju, Karlakór Keflavíkur og sönghópurinn Orfeus. Einnig stíga á stokk einsöngvararnir Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Jóhann Smári Sævarsson, Rúnar Þór Guðmudsson og  Rósalind Gísladóttir ásamt fjölda annarra. Tónlist og útsetningar eru í höndum Arnórs B. Vilbergssonar sem hefur fengið til liðs við sig fjölda hljóðfæraleikara af svæðinu sem leika undir. Einnig kemur fram Ragnheiður Skúladóttir píanóleikari og núverandi Listamaður Reykjanesbæjar.
Efnisskráin er fjölbreytt og má þar nefna kórverk, íslensk sönglög og aríur auk lokakaflans úr Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart og kórs úr Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar. Auk þess verða fluttar aríur úr Nabucco eftir Verdi, Casta Diva eftir Bellini og Nessun Dorma eftir Puccini.
Listrænn stjórnandi tónleikanna er Jóhann Smári Sævarsson. Tónleikarnir hefjast kl. 16:00 sunnudaginn 5. september og standa í tvo klukkutíma með hléi þar sem seldar verða léttar veitingar. Hér er um að ræða metnaðarfulla og glæsilega dagskrá þar sem ekkert er til sparað. Aðgangur er ókeypis og öllum heimilt að koma og njóta á meðan húsrúm leyfir. Takið daginn frá og njótið glæsilegrar tónlistarveislu.

 

Frekari upplýsingar um dagskrá ljósanætur er að finna á www.ljosanott.is.

Flettingar í dag: 36
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 58
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 63680
Samtals gestir: 15478
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 10:34:49
##sidebar_two##

Tenglar