Eldra efni

Kvennakór Suðurnesja

Afmælisdagur:

22. febrúar 1968

Um:

Æfingar mánudaga (raddæfingar) í Tónlistarskólanum í Garði og miðvikudaga í KK-salnum, Vesturbraut 17-19, Reykjanesbæ kl. 19:30

Kennitala:

591071-0259

Færslur: 2010 September

13.09.2010 11:27

Opin æfing á miðvikudag

Kvennakór Suðurnesja heldur opna æfingu í Listasmiðjunni á Ásbrú miðvikudaginn 15. september kl. 20.  Allar konur sem hafa áhuga á söng eru boðnar velkomnar, annað hvort til að taka þátt í æfingunni eða sitja og hlusta.  Það verður kaffi á könnunni og súkkulaði með.  Flestar kórkonur eru úr Reykjanesbæ, en kórinn er opinn konum af öllum Suðurnesjum og eru konur úr Grindavík, Vogum, Garði og Sandgerði hvattar til að mæta líka. 

Æfingar verða í Listasmiðjunni á mánudögum og miðvikudögum kl. 20-22 í vetur.  Á mánudögum eru yfirleitt raddæfingar þannig að hver rödd mætir þriðja hvern mánudag.  Þegar nær dregur tónleikum eða öðrum viðburðum mæta þó yfirleitt allar raddir á báðar æfingar.

Það er ýmislegt á döfinni hjá kórnum.  Fyrir jólin er ætlunin að halda aðventutónleika með söngsveitinni Víkingum og verður byrjað að æfa jólalögin fljótlega.  Eftir áramót fer kórinn svo í árlegar æfingabúðir í Skálholti.  Næsta vor verður haldið landsmót kvennakóra á Selfossi og mun Kvennakór Suðurnesja taka þátt í því auk þess að halda vortónleika hér heima.  Vorið 2012 er svo stefnan sett á söngferðalag til Færeyja.  Það er því margt skemmtilegt og spennandi framundan.  Það má líka benda á að það er læknisfræðilega sannað að við söng framleiðir heilinn endorfin, gleðigjafann sem er besta ráðið við þunglyndi, þannig að það er þjóðhagslega hagkvæmt að sem flestir syngi í kórum, enda er þetta líka frábær félagsskapur.

07.09.2010 18:21

Vetrarstarfið að hefjast

Þá er Ljósanótt lokið og er óhætt að segja að vel hafi tekist til með þátttöku Kvennakórs Suðurnesja í hátíðinni.  Á laugardeginum söng kórinn fyrir troðfullum Bíósal í Duushúsum við frábærar undirtektir og á sunnudeginum tók kórinn síðan þátt í stórglæsilegum hátíðartónleikum í Stapa.  Voru tónleikagestir í skýjunum að þeim loknum og hafa flytjendur og skipuleggjendur tónleikanna hlotið mikið lof fyrir. Það er nokkuð ljóst að tónleikar sem þessir verða fastur liður á Ljósanæturhátíðum komandi ára.

Vetrarstarf kórsins hefst með æfingu í Listasmiðjunni á Ásbrú miðvikudaginn 8. september kl. 19.30, en æfingar verða síðan á mánudögum og miðvikudögum kl. 20 í vetur.  

01.09.2010 14:29

Kvennakór Suðurnesja tekur þátt í Ljósanótt í Reykjanesbæ 2010

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar verður haldin í  11. sinn dagana 2. - 5. september.


Dagskráin þessa hátíðardaga er fjölbreytt og sniðin að þörfum allrar fjölskyldunnar. Bæjarbúar taka virkan þátt í hátíðinni og framboð menningarviðburða hefur aukist ár frá ári jafnt og gestafjöldi. Áhersla er lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags en hápunktur hátíðarinnar er á laugardeginum.

Tónlistin leikur stórt hlutverk á Ljósanótt, má þar nefna rokktónleika í Rokkheimum Rúnars Júlíussonar, bílskúrstónleika eldri kappa, tónleikasyrpu í Duushúsum þar sem Kvennakór Suðurnesja mun koma fram í Bíósalnum kl. 16.30 og hátíðartónleika í Stapa. Tónleikar unga fólksins verða í Frumleikhúsinu á fimmtudagskvöldið og á útisviðinu á föstudeginum koma fram ýmsir tónlistarmenn. Hátíðarhöldin ná hámarki á laugardagskvöldið en þá leika Hjaltalín og Páll Óskar, Hjálmar, Mannakorn og Ellen Kristjánsdóttir.  Gert verður hlé á dagskránni á meðan á flugeldasýningu stendur upp úr tíu en Hjálmar munu leika áfram í nokkra stund að henni lokinni.


Boðið verður upp á kjötsúpu fyrir gesti og gangandi á föstudeginum og árgangagangan á laugardeginum er viðburður sem enginn vill missa af. Skemmtileg barnadagskrá verður á stóra sviðinu á laugardeginum auk þess sem boðið verður upp á ratleik í Duushúsum og Tilraunalandið ásamt hoppuköstulum og kassaklifri verður í skrúðgarðinum. Skessan í hellinum er í hátíðarskapi og mun hún bjóða gestum hátíðarinnar upp á heitar lummur við smábátahöfnina í Gróf.


Fjöldi myndlistarmanna sýnir verk sín víðs vegar um bæinn auk þess sem gallerý og vinnustofur listamanna verða opnar. Þess má geta að á þriðja hundrað einstaklinga eru að sýna verk sín á einn eða annan hátt.

 

Hátíðartónleikar á vegum Tónlistarfélags Reykjanesbæjar verða haldnir í Stapa á Ljósanótt með aðkomu helstu kóra og einsöngvara í Reykjanesbæ.
Meðal þátttakenda eru: Kvennakór Suðurnesja, Kór Keflavíkurkirkju, Karlakór Keflavíkur og sönghópurinn Orfeus. Einnig stíga á stokk einsöngvararnir Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Jóhann Smári Sævarsson, Rúnar Þór Guðmudsson og  Rósalind Gísladóttir ásamt fjölda annarra. Tónlist og útsetningar eru í höndum Arnórs B. Vilbergssonar sem hefur fengið til liðs við sig fjölda hljóðfæraleikara af svæðinu sem leika undir. Einnig kemur fram Ragnheiður Skúladóttir píanóleikari og núverandi Listamaður Reykjanesbæjar.
Efnisskráin er fjölbreytt og má þar nefna kórverk, íslensk sönglög og aríur auk lokakaflans úr Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart og kórs úr Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar. Auk þess verða fluttar aríur úr Nabucco eftir Verdi, Casta Diva eftir Bellini og Nessun Dorma eftir Puccini.
Listrænn stjórnandi tónleikanna er Jóhann Smári Sævarsson. Tónleikarnir hefjast kl. 16:00 sunnudaginn 5. september og standa í tvo klukkutíma með hléi þar sem seldar verða léttar veitingar. Hér er um að ræða metnaðarfulla og glæsilega dagskrá þar sem ekkert er til sparað. Aðgangur er ókeypis og öllum heimilt að koma og njóta á meðan húsrúm leyfir. Takið daginn frá og njótið glæsilegrar tónlistarveislu.

 

Frekari upplýsingar um dagskrá ljósanætur er að finna á www.ljosanott.is.

  • 1
Flettingar í dag: 102
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 139
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 118627
Samtals gestir: 28037
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 22:32:41
##sidebar_two##

Tenglar