Eldra efni

Kvennakór Suðurnesja

Afmælisdagur:

22. febrúar 1968

Um:

Æfingar mánudaga (raddæfingar) í Tónlistarskólanum í Garði og miðvikudaga í KK-salnum, Vesturbraut 17-19, Reykjanesbæ kl. 19:30

Kennitala:

591071-0259

Færslur: 2009 Maí

25.05.2009 23:29

Vinnudagur nr. 3

Þá er búið að mála æfingasalinn, spurning hvort þarf að fara aðra umferð yfir gólfið.  Enn á eftir að fara í gegnum töluvert af nótum og því verður vinnukvöld aftur miðvikudaginn 27. maí kl. 19Allar að mæta sem geta!

22.05.2009 11:06

Annar vinnudagur 25. maí

Það var vaskur hópur fólks sem mætti í æfingaaðstöðu kvennakórsins í Listasmiðjunni í gær.  Þeir fyrstu voru mættir um níuleytið og var strax hafist handa við að tæma salinn svo að hægt væri að rífa teppaflísar af gólfinu.  Þegar þær voru farnar af kom í ljós að undir þeim voru dúkaflísar sem voru einnig látnar fjúka.  Einnig var gömlum skáp og veggplötum hent út.  Á meðan karlarnir og nokkrar konur unnu við þetta tóku hinar konurnar til við að flokka nótnasafn kórsins, en það er orðið töluvert stórt og mikil vinna að fara í gegnum það.  Þar sem veðrið var frábært var ákveðið að hætta uppúr hádegi og hittast aftur á mánudagskvöld 25. maí kl. 19.  Þá verður haldið áfram að flokka nóturnar auk þess sem æfingasalur verður málaður.  Nú mæta allir sem vettlingi geta valdið!

18.05.2009 08:52

Vinnudagur 21. maí

Eins og áður hefur komið fram verður vinnudagur á uppstigningardag, 21. maí.  Mæting er í Listasmiðjunni kl. 10 á fimmtudagsmorgun.  Mætum allar, fáum karlana okkar með og drífum þetta af!

12.05.2009 22:22

Ekki alveg komið sumarfrí ennþá

Þótt það sé komið sumarfrí í söngnum hjá Kvennakórnum þá erum við samt ekki alveg komnar í frí ennþá.  Það verður vinnudagur á uppstigningardag, 21. maí.  Þá ætlum við að hittast í aðstöðunni okkar í Listasmiðjunni og taka aðeins í gegn.  Það þarf að rífa teppaflísarnar af gólfinu o.fl.  Einnig þarf að fara í gegnum nótnasafnið og koma reglu á það.  Það er mikilvægt að allar mæti sem geta og reyni að fá karlana með þannig að þetta taki ekki mjög langan tíma.

10.05.2009 13:30

Sumarfrí

Þá er aðalfundur og lokahóf að baki og kórinn kominn í sumarfrí.  Á aðalfundi sem haldinn var miðvikudaginn 6. maí urðu þær breytingar á stjórninni að Hildur Harðardóttir sem áður var varaformaður tók við formennsku kórsins og Erla Arnoddsdóttir sem gegnt hefur starfi formanns síðasta árið er nú varaformaður.  Að öðru leyti er aðalstjórn kórsins skipuð þeim Bryndísi Skúladóttur gjaldkera, Elísabetu Guðmundsdóttur ritara og Helgu Jakobsdóttur meðstjórnanda sem allar gáfu kost á sér áfram.  Nýir varamenn í stjórn eru Aðalheiður Gunnarsdóttir og Guðrún Guðmundsdóttir.  Nokkrar nefndir voru skipaðar, í skemmtinefnd eru Guðrún Gunnarsdóttir, Lára María Ingimundardóttir, Helga Hrönn Ólafsdóttir og Birta Rós Arnórsdóttir.  Í kaffinefnd eru Þórdís Símonardóttir og Dagný Hildisdóttir.  Í fjáröflunarnefnd er Aðalheiður Gunnarsdóttir, ekki fengust fleiri til að starfa í þeirri nefnd og er óskað eftir tveimur konum til viðbótar til starfa í fjáröflunarnefnd.  Á fundinum var Þórdís Símonardóttir verðlaunuð fyrir bestu mætingu á æfingar og einnig var Dagnýju Þórunni Jónsdóttur stjórnanda afhent gjöf í þakklætisskyni fyrir frábært starf.  Í lok fundarins var boðið upp á glæsilegar kaffiveitingar sem stjórnarkonur töfruðu fram.

Lokahófið var haldið föstudaginn 8. maí í Kiwanissalnum við Iðavelli og var kórbullum (mökum) boðið með.  Ljúffengur kvöldverður var framreiddur af Erni Garðarssyni og starfsfólki hans hjá Soho veitingum.  Að því loknu steig hin frábæra skemmtinefnd á stokk með skemmtiatriði sem svo sannarlega kitluðu hláturtaugarnar hjá viðstöddum.  Kórinn söng svo hið rússneska "Kalinka" og dönsuðu karlarnir kósakkadans við sönginn.  Keppni var um bestu tilþrifin og hlaut Benóný Guðjónsson (Binni hennar Ínu Dóru) verðlaun fyrir þau.  Það verður að segjast að margir fleiri áttu glæsileg tilþrif en Binni bar af.  Að skemmtiatriðum loknum fór gítarinn á loft og hófst þá fjöldasöngur og eitthvað var dansað líka.  Frábært kvöld og góður endir á vetrinum.

Eins og áður sagði er kórinn kominn í sumarfrí, óvenju snemma að þessu sinni.  Kórinn mun að venju syngja á Ljósanótt og vetrarstarfið hefst svo væntanlega í september.  Við viljum minna á að kórinn tekur að sér að syngja við ýmis tækifæri og geta áhugasamir haft samband við stjórnarkonur en upplýsingar um símanúmer og netföng þeirra er að finna hér á síðunni undir liðnum "Um kórinn".
Kórkonum, stjórnanda og meðleikurum er þakkað frábært starf í vetur.  Hafið það gott í sumar, sjáumst hressar í haust.


04.05.2009 11:38

Aðalfundur og lokahóf

Þá er vortónleikum lokið auk fleiri atburða, það virðast allir vera sammála um að vel hafi tekist til og kórinn sé frábær þrátt fyrir "kveneklu".  Það hafðist að læra alla textana, sem var töluverð vinna á öllum þessum tungumálum.  Við erum frábærar, stelpur emoticon og svo erum við náttúrulega svo heppnar að hafa frábæran stjórnanda, hana Dagnýju okkar og ekki er hún Geirþrúður píanóleikari síðri.  Kærar þakkir til ykkar fyrir vel unnin störf og einnig til strákanna flottu, Valda og Jóns Árna sem spiluðu með okkur.  Vonandi berast myndir frá tónleikunum inn á síðuna fljótlega.

Næst á dagskrá er aðalfundur en hann verður haldinn í Listasmiðjunni núna á miðvikudaginn 6. maí kl. 20.  Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf og að venju verður boðið upp á veitingar.  Það mæta að sjálfsögðu allar á fundinn!

Lokahófið verður síðan á föstudaginn 8. maí í Kiwanissalnum við Iðavelli.  Verð fyrir kórfélaga er kr. 1500 en fyrir "kórbullur" kr. 3000.  Tilkynna þarf um þátttöku á aðalfundinum eða hafa samband við stjórnarkonur í síðasta lagi á miðvikudag ef þið komist ekki á aðalfundinn, símanúmer og netföng hjá þeim eru undir liðnum "Um kórinn" hér á síðunni.

Húsið opnar kl. 19.30.  Borðhald hefst kl. 20.

Matseðill:

Forréttir
  • Cesar salat með feta osti, fræjum, sólþurrkuðum tómötum, ferskum parmesan osti og hvítlauks parmesan dressingu.
  • Heitreykt bleikja á couscous salati með piparrótarsósu
  • Brauð, hummus og rautt pesto
Steikarhlaðborð
  • Rósmarín-, hunangs- og sítrónumarineruð kalkúnabringa
  • Ofnsteikt kryddjurtamarinerað lambalæri
  • Innbökuð nautalund Wellington með sósu Chateau Briande
      Meðlæti
  • Sætar kartöflur og kartöflubátar með Miðjarðarhafsgrænmeti, ólífuolíu, hvítlauk og hlynsírópi
  • Gratineraðar kartöflur í hvítlauksrjómaostasósu
  • Blandað grænmeti
  • Tilheyrandi sósur - villisveppasósa og rauðvínssósa
Eftirréttur
  • Frönsk súkkulaðiterta með ávöxtum, þeyttum rjóma og Grand Marnier sósu
Maður fær nú bara vatn í munninn, þetta lítur vel út.  Það verður náttúrulega rosa fjör eins og alltaf hjá okkur, það verða heimatilbúin skemmtiatriði og diskó á eftir.  Góða skemmtun!




  • 1
Flettingar í dag: 102
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 139
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 118627
Samtals gestir: 28037
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 22:32:41
##sidebar_two##

Tenglar